Miðvikudagur, 14. maí 2008
Tungufljót veiðistaðalýsing

Tungufljót í Skaftafellsýslu er gamalkunnugt svæði sem ætti að vera vel kynnt meðal félagsmanna SVFR. Hins vegar hafa árlega orðið miklar breytingar á eðli veiðistaða í Tungufljóti og áin jafnvel skipt um farveg. Því var kominn tími til að endurnýja kynnin við Tungufljót og var Guðmundur Guðjónsson fenginn til að skrifa nýja veiðistaðalýsingu um svæðið. Hér má finna þessa greinagóðu lýsingu Guðmundar.
TUNGUFLJÓT - VEIÐISTAÐALÝSING
Tungufljót er vatnsmikil bergvatnsá sem á upptök í Svartahnjúksfjöllum og fellur milli Búlands- og Ljótsstaðaheiða til byggðar og sameinast Ása-Eldvatni á láglendinu. Ása-Eldvatn er væn kvísl úr Skaftá og þar verða því vatnamót bergvatns og jökulvatns. Fyrrum voru vatnamótin langt niður á aurum og þar voru miklar veiðislóðir, en með tíðum Skaftárhlaupum hefur rennsli Ása-Eldvatns í Tungufljót breyst, það hefur færst miklu mun ofar og fært veiðistaðinn með sér. Niðri á aurum fellur Hólmsá í árnar sameinaðar og heitir fljótið eftir það Kúðafljót.
Tungufljót er veitt með fjórum stöngum og er veiðimönnum nokkuð í sjálfsvald sett hverjar skiptingar eru. Einkenni hins fiskgenga svæðis Tungufljóts er að þar eru frekar fáir veiðistaðir en stórir. Bjarnarfoss er talinn efsti staður fyrir sjógöngufisk. Sjóbirtingur er megin fiskur fljótsins, en einnig er reytingur af laxi og fyrrum var talsvert af sjóbleikju en henni hefur fækkað mjög síðustu árin. Staðbundin bleikja er einnig í ánni, mest í Bjarnarfossi og mest af henni smá. Staðbundinn urriði finnst í nokkrum mæli í ofanverðu fljótinu.
Rétt ofan við Bjarnarfoss eru tveir hyljir, fallegir báðir tveir, Bryggjuhylur og Stangarhlaup, rétt neðan gljúfurs sem er svo þröngt að áin er ekki stangarlengd á breiddina og dýpið eftir því. Litlum sögum fer af því að sjóbirtingur hafi veiðst fyrir ofan foss þó að flestum finnist að hann eigi að ráða við fossinn. Aftur á móti er nokkuð af staðbundnum urriða á þessum slóðum sem getur verið vænn. Sömu sögu er að segja um fljótið ofan við umrædd þrengsli. Þar fellur fljótið um sléttlendi um hríð og hægt að reka í urriða. Annað gljúfur, einnig stórfenglegt, er þar fyrir ofan og í því Titjufoss. Erfitt er að athafna sig þar, en fossinn telst efsti veiðistaður fljótsins. Neðar eru aðgengilegri hyljir, t.d. Fremstihylur og Miðhylur. Sem fyrr segir, þá fer engum sögum af sjóbirtingum á þessum slóðum, en ef hann er tregur neðra þá eru staðbundnir urriðar efra.
Við skoðum núna fiskgenga hluta Tungufljóts og stöldrum við helstu veiðistaði. Byrjum efst og færum okkur neðar.
Bjarnarfoss
Fallegur, breiður, ekkert rosalega hár, en stöllóttur og margslunginn. Áin nær þó saman og fellur í einum óskiptum hörðum streng ofan í fosshylinn sem er mjög djúpur efst og er djúpur niður undir miðju, en byrjar þá að grynnka. Þarna safnast fyrir mikið af fiski og fyrstu göngur strauja oft beint í fosshylinn. Það getur síðan verið nokkuð í næstu göngur og stundum hvergi fisk að fá nema í þessum efsta stað.
Ýmsum leiðist þessi veiðistaður, en aðrir elska hann. En gjöfull er hann og það er mikið staðið við hann. Hægt er að veiða hylinn frá báðum löndum, en flestum finnst betra að standa að vestanverðu. Þar er hægt að vaða út á klapparnef við byrjun strengsins og veiða efsta hlutann. Síðan er bakkað í land og veitt niður með landi frá eyrinni. Ekki vaðið, enda ekki hægt sökum dýpis. Fiskur getur tekið efst og alveg niður fyrir miðjan hyl og sjóbirtingstorfan liggur samfleytt á öllum þessum kafla. Þegar kvölda tekur er hægt að setja í fiska mun neðar, aðallega þó nær austurbakkanum. Þá má einnig oft sjá birtinga stökkva viðstöðulaust, tímabundið, í litlu keri fast við austurlandið þar sem fossbunan bunar niður. Þar er þó örðugt að standa að veiðiskap.
Sumum finnst betra að veiða að austan og ef vatnavextir eru í ánni þá er það gjarnan eina leiðin. Þá fara menn efst og kasta þaðan af brúninni og síðan niður með eftir því sem vatnshæðin leyfir og staðurinn kembdur þannig alveg niður á brot. Við þær aðstæður er gott að hafa í huga að fiskur er ekki í mesta straumnum, heldur til hliðar og þar sem var er að finna.
Klapparhylur og Björnshylur
Þessir staðir gefa sjaldan fisk nú orðið, en báðir líta ágætlega út engu að síður. Þeir detta þó inn af og til sem segir okkur að það mætti kannski fleiri reyna þá oftar. Þeir gleymast örugglega tíðum og gerðu menn þó vel að skjótast í þá milli þess að þeir hvíla fossinn og Breiðufor, því örstutt er á milli staða hér.
Breiðafor
Þetta er margslunginn veiðistaður sem um langt árabil hefur verið einn af bestu veiðistöðum árinnar. Þó að hann sé skammt neðan við Bjarnarfoss verður hann oftast virkur talsvert á eftir fosshylnum. Efst í Breiðufor fellur rauðamýrarlækur í ána að austan og þar niður af hafa menn oft sett í laxa. Gott að kemba ána þar með þungri Snældu eða þvíumlíku. Brátt er komið að stórum móbergskletti úti í miðri á og öðrum nokkrum metrum fyrir neðan, en sá liggur ögn nær austurlandinu. Á milli þeirra er mikill hylur og hefur þessi hylur lengi verið mikil veiðislóð. Fiskur hefur legið í hylnum sjálfum og undir og utan í neðri klettinum. Undir klettinum að ofanverðu er mikill skápur sem getur geymt mikið af fiski sem menn koma alls ekki auga á, en kemur í leitirnar þegar halla tekur degi og er enn oft á stjái að morgni dags er menn mæta til starfa..
Austurbakkinn er hár moldar- og móbergsveggur og er verra að veiða undir honum heldur en á vesturbakkanum þar sem er þægileg malaraðstaða. Samt má færa góð rök fyrir því að Breiðafor sé ekki fullreynd nema frá báðum bökkum, því tökustaðir eru í hylnum nærri austurlandinu sem erfitt er að kemba nógu vel frá eyrinni. Þegar veitt er frá eyrinni getur fiskur tekið um allan hyl, en oft er heitast rétt ofan við neðri klettinn og þegar agnið sveifar fyrir ofan hann og til hliðar við hann.
Enn fremur er veiðilegt nokkuð langt þar niður af, en þá í straumnum er fellur með austurbakkanum. Er gott að vaða út nokkru fyrir neðan neðri klettinn, út á grunnan malarhrygg og upp eftir aftur, langleiðina að klettinum og kasta þaðan að austurlandinu, veiða sig síðan þar niður með. Þarna eru nokkur lítil klapparnef og skvompur og gjár þar sem fiskur liggur mjög oft, sérstaklega þegar vatn er í rúmlega meðalhæð eða meira. Þennan hluta má einnig veiða með því að klöngrast undir bröttum bakkanum austanmegin, en það er erfiðara vegna plássleysis og svo eru menn mun nær fiskinum og eiga á hættu að styggja hann.
Búrhylur
Rétt ofan við Búrhyl fer kvísl til vesturs og fer inn undir hlíð þeim megin. Áður rann þar mun meira vatn og þar var áður frægur staður, Festarfor, sem gefur nú aðeins stöku fisk þegar flóð eru í ánni, eða mjög seint á haustin. Megnið af vatninu fer hins vegar ofan í Búrhyl sem er afar fallegur hylur meðfram kjarri vaxinni hæð að austanverðu. Strengurinn fyrir ofan hylinn er langur og stundum má sjá laxa stökkva þar. Þar hafa veiðst laxar, en annars er best að veiða frá því að stór og mikill steinn breytir strengnum ofarlega og niður undir miðjan hyl þar sem að stórir steinar eru í fjöruborðinu austan megin. Einnig getur fiskur tekið neðar ef vatnsmagn er mikið. Búrhylur er líklega einn besti laxahylur árinnar og gefur oftast nokkra laxa. Nokkrir birtingar gefa sig þar líka flest haust, en þetta er samt ekki eins gjöfull hylur og útlit hans gæti bent til. Þar er þó alltaf fiskur.
Á broti Búrhyls er bílvað sem þeir nota sem ætla að aka upp í Breiðufor og Bjarnarfoss og veiða frá vesturlandinu. Þarna er straumur mikill og vaðið er varasamt þegar vex í ánni. Þess vegna eru umræddir hyljir oft aðeins veiðanlegir frá austurlandinu. Menn eru hvattir til að ana ekki útí vaðið ef rignt hefur hressilega og vaxið í ánni. Vaða aðeins út fyrst og ágæt viðmiðun er, að ef menn geta varla fótað sig fyrir flaumi þá er viðbúið að jeppinn taki hressilega á sig.
Grafarvað
Frá Búrhyl fellur áin eftir eyrum og með lágum bökkum að beygju þar sem kvíslin frá Festarfor kemur aftur og blandast meginvatninu. Fyrir neðan beygjuna fer áin með grasbakka að vestan, en veitt er frá eyri að austan. Í beygjunni sjálfri, í harðastrengnum, er stundum skvompa um það bil í miðjunni þar sem birtingar í göngu liggja stundum. Annars er það hylurinn með bakkanum sem á hug manna. Gott er að miða við skiltið sem er á grasbakkanum, en um það bil frá því og alveg niður að enda grasbakkans getur fiskur tekið. Þetta er nokkuð langur hylur með jöfnum straumi og eru grynnri hryggir á milli dýpri rása. Þetta er magnaður veiðistaður og menn hafa oft lent þarna í algerri mokveiði þegar fiskur er að færa sig upp ána eftir flóðvatn. Grafarvað hefur verið vaxandi síðustu ár á meðan næsti staður fyrir neðan, Fitjabakkar, eða Hlíðarfit öðru nafni, hefur dalað.
Fitjarbakkar
Frá Grafarvaði fellur áin í átt að þjóðveginum sem liggur fram dalinn og sveigir síðan í krappri beygju niður með honum. Þarna er langur hylur sem byrjar í beygjunni, Fitjabakkar, sem gefur enn og heldur fiski, en hefur samt dalað talsvert frá því sem áður var. Fyrir nokkrum árum rann áin með hærri grasbakka að austan, en bændur tóku upp á því að styrkja bakkann með því að brjóta niður hnausa og koma fyrir hraungrjótshleðslum í staðinn og hvort sem það er skýringin eður ei, þá hefur hylurinn ekki verið jafn gjöfull síðan. En hann heldur alltaf fiski samt sem áður. Botninn breytist þarna oft, t.d. var fyrir fáum árum djúpur pyttur efst í beygjunni og þar lágu fiskar. Veiddist þá m.a. ríflega 18 punda birtingur þar. Allra síðustu árin hafa Fitjabakkar gefið best um það bil frá girðingunni á austurbakkanum og ca 20 til 30 metra þar niður af. Best er að veiða hylinn frá eyrinni og þá þarf að ganga talsvert upp eða niður með ánni til að vaða yfir. Sumir veiða þó af hærri bakkanum og hafa veitt vel. Ef að áin er í vexti eða vatnsmikil er það sjálfvalið að veiða frá grasbakkanum, því neðra vaðið er djúpt og það efra straumþungt.
Rétt fyrir neðan Fitjarbakka var áður veiðistaðurinn Hlíðarvað, en þar hefur lítið verið að gerast síðustu árin. Þó gerðu menn vel að eyða kortéri í að rölta þessa stuttu leið og sjá hvort að áin sé búin að grafa út hylinn á nýjan leik, en þarna rennur áin meðfram lágum grasbakka að vestan, en veitt frá eyrinni að austan..
Það er all nokkur kafli frá Fitjarbökkum og niður að brú. Á þeirri leið er merktur staður Gæfubakki. Þar er lítið farið vegna þess að enginn er vegurinn þangað og talsvert labb og menn vilja ekki eyða dýrmætum tíma sem talið er betur varið við hina frægari hylji. En þarna var fyrrum veiðistaður og hver veit nema að þarna leynist fiskur enn?
Brúin
Það er nauðsynlegt að rannsaka brúarsvæðið á hverju ári. Áin breytir sér þarna reglulega og oft er staðurinn nánast óþekkjanlegur frá einu ári til þess næsta. Fyrst ber að nefna klapparhól rétt ofan brúar að vestan. Þangað til í fyrra rann áin þar niður með að hluta og meðfram klettinum lágu oft fiskar, einnig undir klettinum en þar er hellir. Stundum stórir fiskar þar og oft bleikja líka. Í fyrra hafði áin fært sig frá klettinum og hann stóð í dauðu vatni.
Oft er veiðivon við báða brúarstólpa. Að vestanverðu beinlínis undir brúnni, en að austan er stundum veiðilegt að kasta á hornið við útfall síkisins, veiða niður og undir brúna og aðeins niður strenginn niður af brúnni. En sem fyrr segir, þá breytist þetta svæði oft svo mikið að allir staðirnir geta verið virkir eitt árið, en enginn þeirra það næsta.
Neðan við brú er merktur gamall veiðistaður, Kríuhólmi, en þar hefur áin grynnkað mjög og lítið þar að gerast seinni árin. Sama að segja um Efri Hólm, eða Efri Hólma. En veiðistaður sá sem kenndur er við Syðri Hólm(a) er allt annar pappír og þarna hefur verið mögnuð veiði síðustu árin.
Syðri Hólmur eða Syðri Hólmi.
Þegar ekið er frá veiðihúsinu niður á þjóðveg, er beygt nær strax til hægri eftir hálfgerðri jeppaslóð sem liggur fram á bakka þar sem skógartunga teygir sig fram og heldur beinni stefnu á Tungufljóti um sinn. Þarna niður með bröttum kjarri vöxnum bakkanum eru vatnamótin þessi misserin og sýnir hvað best hvað breytingar hafa verið miklar hin seinni ár, en fyrir 10-20 árum voru vatnaskilin mörg hundruð metrum neðar. Það er breytilegt hvar skilin liggja frá ári til árs, og einnig breytilegt miðað við vor- og haustveiði. Vatnshæð fljótsins og Ása-Eldvatns hverju sinni kemur og við sögu þannig að menn verða að fikra sig niður með brekkunni og finna hvar þau liggja hverju sinni. Þegar þau eru fundin getur fiskur tekið á stóru svæði. Svæði sem getur náð niður að beygju og jafnvel niður með henni allri og allt að útfalli Kálfár, sem er lítil bergvatnsspræna sem rennur í fljótið úr vestri.
Í fyrra (2007) lágu efstu skilin fremur ofarlega og var hægt að vaða all langt út í tæra vatninu og jafnvel yfir á eyri í miðju flæminu og kasta á skilin. En til að veiða neðar þarf að hypja sig aftur til lands og mjaka sér niður með klungrinu og kjarrinu sem er fjarri því auðvelt og getur auk þess valdið erfiðleikum þegar landa skal fiski og eru dæmi um að tröll hafi náð að flækja línum í birkihríslur á ögurstundu og rífa sig laus. Eftir því sem neðar dregur færast skilin æ nær landi uns þau hverfa.
Gott er að hafa í huga á þessum stað öðrum fremur, að taka agnið ekki of fljótt uppúr. Í vatnaskilunum stundar birtingurinn það að elta langar leiðir og grípa jafnvel ekki agnið fyrr en það er komið upp í harðafjöru og hætt að svifa.
Flögubakkar
Flögubakkar byrja um það bil við neðra hornið á ós Kálfár og eru í beinu framhaldi af veiðisvæði Syðri Hólma. Ná þeir síðan eins langt og menn komast og fer eftir stöðu fljótsins og Ása Eldvatns hverju sinni. Fyrir nokkrum árum lágu aðal vatnaskilin einmitt hér og veiddu menn þá skilin frá horni Kálfáróss og niður að og meðfram hólmanum stóra þar nokkru neðar. Nú er erfitt að komast niður með hólmanum í sumar- og haustvatni vegna þess að kvísl sem sker leiðina og var áður vatnslítil, er nú vatnsmikil og hættuleg með sandbleytu. Þá liggja vatnaskilin á sumrin og haustin ofar nú orðið, eða við Syðri Hólma. Enn í vorveiðinni er þetta þó venjulega heitt svæði þegar litur er ekki eins dökkur á Ása Eldvatni og gerist á sumrin og haustin, og skilin því hér á sínum gömlu slóðum.
Eftir því sem veiðin jókst í Syðri Hólma fyrir nokkrum árum, dalaði hún í Flögubökkum í haustveiðinni, en 2006 var komin kvísl úr Ása- Eldvatni sem skilaði dálítilli tærri rönd við Kálfárhornið og nokkra metra niður með. Óðar var þar komin veiði aftur, en líkt og við brúna og Syðri Hólma, þá breytist þetta svæði mjög ört og verður að skoða það alveg uppá nýtt á hverju ári. Í fyrra örlaði enn á þessari tæru kvísl, en spurning hvort að hún sjáist á komandi vertíð.
Sem sagt, breytileikinn er endalaus og svo lenda menn stundum í Skaftárhlaupum og fer þá allt á flot. Eina leiðin er þá að finna skilin. Einhvers staðar eru þau og í hlaupvatni færast þau eðlilega ofar. Finnið skilin og þið finnið fiskinn.
Á veiðikortum er skráður veiðistaðurinn Tangi. Á árum áður eru mörg dæmi um að menn hafa gengið þangað og sett í fiska. Á þeim árum lágu vatnamótin miklu neðar en þau gera nú. Tangi er núna langt frá öllu bergvatni og þangað fara fáir eða engir meir. Enginn skyldi þó segja að útlokað sé að veiða þar. Birtingurinn fer allur þar um og oft hafa menn veitt sjóbirting í jökulvatni. Það er bara þessi brennandi spurning, að eyða nokkuð löngum tíma í tilraun sem mun mögulega mistakast.
kv Acefly
Nýjustu færslur
- 10.8.2010 fyrsti lax sumarsins Syðri brú þann 25 júlí
- 26.7.2010 Fluga vikunnar
- 12.7.2010 Fluga vikunar Avatar
- 7.7.2010 fluga vikunar
- 1.7.2010 Sumarið er komið
- 21.4.2010 Nýjar flugur komnar í sölubás
Um bloggið
Fluguveiði
Tenglar
Mínir tenglar
- Where wise men fish
- Besti Ljósmyndarinn á íslandi
- Vötn og Veiði
- Fly fishing show
- Flugu efni til að búa til túpur
- Steven Thornton fluguhnýtari
- flugur.is
- agn.is
- veiði.is
veiðileyfi
veiðiverslanir
- intersport
- Veiðihöllin
- Veiðihornið
- Veiðivon
- Veiðiflugur.is Ný veiðivöruverslun á kambsvegi
líkamsþjálfun
- þjálfun.is einkaþjálfun og fitubrennsla /komist í gott form fyrir sumarið
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.4.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.